Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Úrskurður nr. 139/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 139/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15110012

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, sem barst kærunefnd útlendingamála þann 4. nóvember 2015, kærði […](hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. október 2015, um að synja kæranda um dvalarleyfi vegna náms.

Af kæru verður ráðið að gerð sé krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002, um útlendinga, og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á Íslandi vegna náms, skv. 12. gr. e laga um útlendinga. Umsókn kæranda var hafnað af stofnuninni með ákvörðun, dags. 8. október 2015. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 4. nóvember. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd samtímis kæru. Þann 10. nóvember 2015 hafði kærunefnd borist gögn málsins frá Útlendingastofnun. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 3. desember 2015.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að af átta umsækjendum frá […]sem fengu inngöngu í nám hjá Háskóla Íslands hafi sjö verið frá borginni[…]. Kærandi hafi fengið inngöngu í […]við Háskóla Íslands. Hann sé ekki frá […]en hann hafi hins vegar verið búsettur þar til lengri tíma. Stofnunin hafi upplýsingar um að kærandi hafi bæði stundað nám í og starfað þar í fjögur ár. Hann hafi stundað nám við […]á sama tíma og tveir aðrir umsækjendur. Samkvæmt umsókn kæranda hafi hann flutt til […]í ágúst árið 2013, en hann hafi ennþá tengsl við […]og styðji bankagögn það sem hafi öll verið útgefin í […]og dagsett í júní og júlí árið 2015. Íbúafjöldi […]sé um það bil […]og sé ólíklegt að átta einstaklingar þaðan sæki um nám við Háskóla Íslands á sama tíma og þar af sjö um sama námið. Að mati stofnunarinnar geri fleiri atriði umsóknir þessara einstaklinga ótrúverðuga en fyrir lægi að einstaklingar frá […]hafi sótt um hæli í […]eftir að hafa verið veitt dvalarleyfi á grundvelli náms á Íslandi. Kærandi hafi þó ekki tengsl við[…]. Hann hafi hins vegar tengsl við aðra umsækjendur frá […]og hafi einn þeirra tengsl við[…]. Við heildarmat á gögnum málsins taldi stofnunin að tilgangur kæranda með komu til Íslands væri ekki sá sem uppgefinn hafi verið og því væri það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt 5. mgr. 34. gr. reglugerðar um útlendinga um að tilgangur dvalar skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Stofnunin synjaði því kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. e laga um útlendinga. Af ástæðum þeim sem nefnd eru í ákvörðun stofnunarinnar og vegna aðstæðna í málinu taldi stofnunin ekki þörf á því að veita kæranda andmælarétt um mat stofnunarinnar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Af gögnum málsins má ráða að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi.

Í greinargerð kæranda kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á getgátum. Kærandi telji það undarlegt að stofnunin haldi því fram að hann muni hugsanlega sækja um hæli í[…]. Ástæða komu hans til Íslands sé að fara í nám. Það sé tilviljun ein að samlandar og samborgarar hans hafi sótt um nám á Íslandi á sama tíma og hann. Hann hafi engin tengsl við þetta fólk og það eigi ekki að gera hann fórnarlamb aðstæðna. Hann hafi búið og starfað í […]í yfir þrjú ár og vilji auka við menntun sína með því að koma til Íslands í nám.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 30. júní 2015 um dvalarleyfi á grundvelli náms hér á landi skv. 12. gr. e laga um útlendinga.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í 12. gr. e laganna er kveðið á um dvalarleyfi vegna náms hér á landi. Heimilt er að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda fullnægi hann þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi um undirbúning, þar á meðal tungumálakunnáttu. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðinu eru að útlendingur fullnægi skilyrðum 1. og 2. mgr. 11. gr. og stundi fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Umsækjandi þarf því að uppfylla grunnskilyrði dvalarleyfis skv. 1. mgr. 11. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 11. gr. er kveðið á um eitt þessara grunnskilyrða, en samkvæmt því skal útlendingur uppfylla skilyrði fyrir dvalarleyfi sem fram koma í lögunum og reglum skv. 1. mgr. 3. gr., en með því síðarnefnda er átt við reglugerðarheimild ráðherra.

Í 5. mgr. 34. gr. reglugerðar um útlendinga kemur fram að tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Eins og fram hefur komið er synjun Útlendingastofnunar byggð á því að tilgangur dvalar kæranda er talinn ótrúverðugur. Stofnunin byggir á því að þar sem kærandi sótti um dvalarleyfi ásamt hópi samlanda sinna séu líkur á að tilgangur dvalar hans sé ekki í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt var um.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir mál kæranda á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir. Ekki verður annað ráðið af þeim en að niðurstaða stofnunarinnar varðandi trúverðugleika umsóknar kæranda um dvalarleyfi vegna náms sé á rökum reist. Því er fallist á það mat stofnunarinnar að ástæða sé til að efast um tilgang ferðar kæranda hingað til lands og að tilgangur dvalar hér á landi sé ekki í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um. Er hin kærða ákvörðun því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum